Hvað er Breiðargerði?
Breiðargerði er lífræn garðyrkjustöð staðsett framarlega í Skagafirði, nánar tiltekið í fyrrum Lýtingsstaðahreppi.
Þar er framleitt margs konar grænmeti með lífræna vottun, aðallega í útiræktun en einnig í óupphituðum gróðurhúsum.
Á bænum eru líka nokkrar endur og hænur auk þess sem þar er stunduð nytjaskógrækt og býflugnarækt.
Undir merkjum Breiðargerðis eru einnig framleiddar fjölbreyttar sælkeravörur, þar sem fyrst og fremst er verið að vinna með hráefni sem falla til við ræktunina og hefðu annars farið til spillis. Þar má nefna útlitsgallað grænmeti og afskurð, en einnig vannýttar auðlindir á borð við vallhumal og krækiber.
Lögð er áhersla á gæði, samvinnu við náttúruna og góða nýtingu hráefnis.
Manneskjan á bak við fyrirtækið
Elínborg Erla keypti jörðina Breiðargerði árið 2015, en þá hafði ekki verið búrekstur þar síðan árið 1975. Jörðin er í um og yfir 170 metra hæð yfir sjávarmáli og veðuraðstæður geta verið krefjandi.
Áskoranirnar eru því margar, mörg handtök unnin og enn fleiri eftir til þess að gera Breiðargerði að blómlegri garðyrkjustöð.
Elínborg hefur umsjón með og annast dagleg störf á garðyrkjustöðinni, auk þess sem hún hannar allar uppskriftir og sér um framleiðslu á sælkeravörunum.
Elínborg útskrifaðist frá Garðyrkjuskólanum að Reykjum vorið 2020, af braut garðyrkjuframleiðslu með sérhæfingu í lífrænni ræktun.
Að auki hefur hún lokið námi frá Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað, en þar fékkst dýrmætur grunnur sem gagnast vel við matvælaframleiðsluna. Að auki hefur hún sótt fjölmörg námskeið tengd garðyrkju og matvælaframleiðslu.
Brennandi áhugi á öllu sem viðkemur hvers konar ræktun og náttúrunytjum er það sem drífur áfram starfsemina.
Endilega kíkið á Instagram og Facebook síður Breiðargerðis til að fá aukna innsýn í dagleg störf á garðyrkjustöðinni. @breidargerdi
Af hverju lífræn ræktun?
"Ég raunverulega trúi því að lífræn ræktun sé betri, bæði fyrir okkur og umhverfið"
Öll ræktun og landbúnaður hefur áhrif á umhverfið, en í lífrænni ræktun er leitast við að hafa þessi áhrif eins lítil og mögulegt er.
Mikil áhersla er lögð á að næra jarðveginn og jarðvegslífið og skapa góða hringrás næringarefna.
Í lífrænni ræktun er hvorki notast við skordýra né plöntueitur, og ekki innfluttan kemískan áburð. Áburðarefnin eru af lífrænum toga og eins mikið úr nærumhverfinu og hægt er. Lífrænn úrgangur er moltaður og honum komið aftur inn í hringrásina, auk þess sem notast er við skiptiræktun. Skiptiræktun virkar þannig að breytilegt er á milli ára hvaða tegund er ræktuð hvar, en það minnkar líkur á því að sjúkdómar og jarðvegsþreyta geri vart við sig.
Lífræn vottun frá óháðum aðila er grundvöllur þess að selja megi vörur merktar sem lífrænar. Hér á landi er það Vottunarstofan Tún sem gefur út slíka vottun.
Lífræn vottun veitir neytandanum mikið öryggi, hann veit hvað hann er að kaupa og á heimasíðu Tún má nálgast þær reglur sem lífræn framleiðsla þarf að uppfylla: www.tun.is
Fyrir meiri upplýsingar og fróðleik endilega heimsækið heimasíðu verkefnisins Lífrænt Ísland: www.lifraentisland.is
Hvar fást vörurnar?
Það getur verið breytilegt hvað er til og hvar. Þessi listi er uppfærður reglulega
Vilt þú selja vörur frá Breiðargerði? Hafðu samband: breidargerdi@gmail.com
Ferskt grænmeti - á uppskerutíma
Í sjálfsafgreiðslu í Breiðargerði
Í bíl smáframleiðenda www.vorusmidja.is
Skagfirðingabúð, Sauðárkróki
Olís, Varmahlíð
Sælkeravörurnar - yfirleitt fáanlegar allt árið um kring
Í sjálfsafgreiðslu í Breiðargerði (ath aðeins opið á sumrin)
Í vefverslun hér á heimasíðunni
Í vefverslun Vörusmiðju Biopol, verslun.vorusmidja.is
Rúnalist Gallerí, Stórhól 561 Varmahlíð
Skagfirðingabúð, Sauðárkróki
Olís, Varmahlíð
Litlu Bændabúðinni, Flúðum
Made in Ísland, Selfossi
Einnig er sjálfsagt að hafa samband á facebook, instagram eða breidargerdi@gmail.com til þess að panta